Bílastæði í kjallara og greiðfært að stofnbrautum
Á fyrsta uppbyggingarsvæði Borgarhöfðans, skipulagssvæði 1, verða allt að 1.570 íbúðir og um 2.020 bílastæði. Þar af verða 1.175 samnýtt leigustæði neðanjarðar og um 200 samnýtt á yfirborði.
Undir íbúðahúsum verða almennt sérmerkt bílastæði ætluð íbúum en í vissum húsum með blandaða nýtingu verða opin bílastæðahús. Slíkt eykur nýtingu og lækkar rekstrarkostnað enda er nýting íbúa mest utan hefðbundins starfstíma fyrirtækja.
Hvort sem leiðinni er heitið í vinnuna eða út á land er fljótlegt að er að komast til allra átta frá Borgarhöfða. Vesturlandsvegur og Reykjanesbraut eru í nokkurra mínútna fjarlægð.
Tvær Borgarlínustöðvar verða í hverfinu. Þær eru hluti fyrstu lotu Borgarlínu sem reiknað er með frá árinu 2031. Leiðin fer frá Borgarhöfða í Hamraborg með viðkomu í miðborginni.
Í framtíðinni verður biðstöðin við Krossamýrartorg tengistöð þriggja leiða sem fara í Grafarvog, Árbæ og Mosfellsbæ.
Í verksjá á borgarlinan.is má fylgjast með undirbúningi fyrir fyrstu lotu Borgarlínu.
Biðstöð Strætó nr. 24 er við Krossamýrartorg. Í um tíu mínútna göngufjarlægð eru jafnframt biðstöðvar sex annarra leiða, þ.e. leiða 5,6,12,15,16 og 18.
Öflugar almenningssamgöngur eru mikilvægar fyrir lífsgæði á Borgarhöfða og gera bíllausan eða bílléttan lífsstíl að góðum valkosti.
Öruggar gönguleiðir og hjólastígar innan hverfis og í aðra borgarhluta
Greiðfærar og öruggar göngu- og hjólatengingar verða innan hverfis og yfir í Elliðaárvog. Innan hverfisins eru stígar meðfram öllum götum og í gegnum marga inngarða. Helstu göngustígar og gönguleiðir á Krossamýrartorgi verða upphitaðir.
Mannlíf ásamt umferð gangandi og hjólandi fær gott rými á yfirborði. Gert er ráð fyrir sérstökum hjólastígum í göturýmum borgargatna og að almennt verði upphækkaðar göngu- og hjólaþveranir yfir götur.