Lífsgæði og heilsueflandi umhverfi fyrir öll aldursskeið
Reykjavíkurborg gerir ráð fyrir tveimur nýjum samþættum leik- og grunnskólum á Borgarhöfða, annar þeirra verður í vesturhluta Bryggjuhverfis og hinn við Borgarlínuásinn. Í Elliðaárvogi, í tengslum við uppbyggingu í Vogabyggð, áformar Reykjavíkurborg uppbyggingu samþætts leik- og grunnskóla.
Safnskóli fyrir eldri nemendur er ráðgerður undir hamrinum. Áætlað er að uppbyggingu fyrsta skólans í borgarhlutanum verði lokið árið 2031. Heimild er fyrir rekstri ungbarnaleikskóla á nokkrum stöðum í hverfinu.
Skólaakstur er frá Eirhöfða að Hamraskóla fyrir 1. til 7. bekk og að Foldaskóla fyrir eldri bekki.
Nærandi útivist í fjölbreyttri náttúru
Í fjörunni verður hægt að njóta kyrrðar og virða fyrir sér lífríkið í fjöruborðinu. Á góðviðrisdögum er hægt að leika í flæðarmálinu eða njóta sólseturs við Elliðaárvog.
Meðfram Elliðaárvoginum verður útivistarsvæði með gönguleiðum, trjáþyrpingum, setsvæðum og áningarstöðum með leikstækjum fyrir alla aldurshópa.
Fjallað er um útfærslu svæðisins í hönnunarhandbók svæða 1 og 2.
Grænn garður fylgir hamrinum í gegnum hverfið. Hann liðast frá Fornalundi að Bryggjuhverfinu og teiknar að hluta til upp náttúrulegu strandlínuna. Á brún hamarsins er útssýnisstígur en undir honum skjólsæll garður og stígur sem tengir saman skólalóðir hverfisins. Leiðin er brotin upp með áningarstöðum og leiksvæðum.
Fjallað er um útfærslu græns svæðis við hamarinn í hönnunarhandbók svæða 1 og 2.
Á Geirsnefi í Elliðaárvogi hafa verið lögð drög að endurbótum útivistarsvæðisins með aðstöðu fyrir íþróttir og afþreyingu. Þar verður náttúrulegt yfirbragð þar sem landmótun, skjólmyndun, gróðursetning og skilgreindar gönguleiðir styrkja náttúruna og bæta lífsgæði íbúa.
Skipulagslýsing á breyttu deiliskipulagi hefur verið birt í skipulagsgátt. Breytingunni er betur lýst á vef Reykjavíkurborgar.
Allt fyrir heilsuna
Ný heilsurækt með fjölbreyttum æfingatækjum og sölum er ráðgerð á Krossamýrartorgi. Heilsuklasinn er í um fimm mínútna göngufjarlægð frá Krossamýrartorgi, þar er líkamsrækt, sálfræðiþjónusta, sjúkraþjálfun og þjónusta sérfræðilækna.
Heilsugæslan Höfða er í um 5 mínútna göngufjarlægð frá Krossamýrartorgi. Á Heilsugæslunni Höfða er öll almenn heilsugæsluþjónusta s.s. mæðravernd, ungbarnaeftirlit og bólusetningar. Heilsugæslan Höfða býður upp á sálfræðiþjónustu líkt og Heilsuklasinn.
Við Krossamýrartorg er gert ráð fyrir heilsulind með fjölbreyttri vandaðri aðstöðu sem nýtist jafnt íbúum lífsgæðakjarnans, öðrum íbúum hverfisins og starfsfólki á svæðinu.
Iðjugarður í hjarta hverfisins verður athvarf til leiks, hvíldar og samveru. Gert er ráð fyrir sólríkum og skjólríkum svæðum þar sem hægt verður að sýna sig og sjá aðra.
Garðurinn er á stærð við Austurvöll, sem hefur reynst heppileg stærð á opnu rými í reykvísku umhverfi. Fjallað er nánar um garðinn í hönnunarhandbók svæðis 1 og 2.
Lífsgæðakjarni með hjúkrunarheimili, þjónustuíbúðum og heilsutengdri þjónustu
Grundarheimilin, Heimar og Klasi vinna sameiginlega að þróun lífsgæðakjarna að Eirhöfða 8 með um 110 hjúkrunarrýmum og allt að 160 þjónustuíbúðum auk heilsutengdrar þjónustu.
Markmiðið er að skapa samfélag fyrir eldri borgara sem ýtir undir hreysti og heilbrigði, styður við félagsleg tengsl og býður upp á aðstæður við hæfi allra íbúa.
Húsið er á besta stað m.t.t. samgangna fyrir starfsfólk, íbúa og gesti. Áformin eru háð því að samningar náist við hið opinbera um rekstur hjúkrunarheimilisins.
Nánar