Endurheimt gróðurþekju, votlendi og ofanvatnslausnir eru lykilþættir í skipulagi Ártúnshöfða og Elliðaárvogs.
Ofanvatnslausnir veita regni í jarðveg í stað fráveitukerfa. Vatnið síast náttúrulega og útfærslurnar styðja við lífríkið.
Markmiðið blágrænna ofanvatnslausna er að sem mest af ofanvatni leiti beint í jarðveginn í stað þess að vera veitt í lokuð fráveitukerfi. Því ofanvatni sem eftir er, er stýrt í gegnum vef grænna svæða sem hægja á flæði vatns svo að það nái að síga niður í jarðveginn á leið sinni í átt að hafi. Restin af ofanvatninu er að mestu leyti beint að votlendinu á Ártúnshöfða og Elliðaárósum.
Blágrænar ofanvatnslausnir létta á veitukerfi borgarinnar, viðhalda heilbrigðum vatnsbúskap, eru fjárhagslega hagkvæmar og minnka mengun. Síðast en ekki síst auka þær líffræðilegan fjölbreytileika og gera heildaryfirbragð gatna og annarra almenningsrýma grænna og meira aðlaðandi, bæði fyrir fólk, spörfugla og frævandi skordýr.
Söfnunar- og siturlautir safna ofanvatninu eftir úrkomu en eru þurrar inn á milli og nýtast þá sem sparkvellir, leiksvæði eða samkomusvæði. Í söfnunarlautum leitar vatnið í aðra viðtaka en í siturlautum seitlar það hægt og rólega ofan í jarðveginn.
Regnbeð taka við ofanvatni og halda því tímabundið á meðan það seitlar ofan í jarðveginn. Þeir eru öflugir viðtakar skaðlegra mengunarefna og laða að sér fugla og skordýr. Í regnbeðum eru fjölbreyttar, vatnsþolnar plöntur.
Ofanvatnsrásir taka við ofanvatni og sía það niður í jarðveginn eða veita því yfir í aðra viðtaka. Þær eru ýmist harðar eða þaktar grasi eða gróðri og fer það eftir staðsetningu. Á opnum grænum svæðum eru ofanvatnsrásir grasi vaxnar en í þröngum borgarrýmum eru notaðar harðar ofanvatnsásir sem taka mið af umhverfi sínu.
Tjarnir og votlendi fyrir náttúruna.
Upphækkaðir stígar fyrir þig.
Á grænum svæðum við Elliðaárósa og undir hamrinum verður belti tjarna og votlendis, þ.e. svæði sem heldur vatni öllum stundum. Beltið er lokahlekkur í blágrænum ofanvatnslausnum hverfisins. Gróðurval í votlendi mun líkja eftir eftir náttúrulegu votlendi. Þannig er leitast við að skapa aðstæður þar sem gróður og náttúra þrífst og dafnar.
Upphækkaðir stígar veita íbúum aðgengi á meðan náttúru svæðisins er hlíft.
Minni tjarnir verða í inngörðum og á öðrum stöðum í hverfinu sem taka við regnvatni og fuglalífi.
Götutré brjóta vind og skapa vistlegt, aðlaðandi umhverfi með sterkum árstíðabundnum breytingum
Í hönnunarhandbók svæðis 1 og 2 kemur fram listi stórra trjátegunda sem henta í borgargötur í hverfinu. Tegundirnar eru: garðahlynur, álmur, askur, silfurreynir, eik, beyki, lind og furur.
Í borgargötum er gerð krafa um lögun krónu og rótarkerfis. Trén þurfa að þola mengun, salt og vind. Þar sem vegfarendur þurfa að komast undir krónu þarf stofnhæð upp að krónu að vera að minnsta kosti 4,2 metrar.
Flestar götur byggðarinnar verða prýddar götutrjám sem standa ýmist í röðum eða í þyrpingum og eru af ýmsum tegundum. Gróðursetningarmynstur og tegundaval fer eftir gerð göturýmis. Í vistgötum, gönguás og grænum húsagötum eru götutréin minni og almennt gróðursett óreglulega. Í húsagötum, borgargötum og við Borgarlínuás eru götutré stærri og takfastari og gerð meiri krafa um lögun krónu og rótarkerfis.
Í hönnunarhandbók fyrir svæði 1 og 2 kemur fram listi lítilla og meðalstórra trjátegunda sem henta m.a. í húsagötur, vistgötur o.fl. í hverfinu. Tegundirnar eru birki, gráelri, svartelri, ilmreynir, skrautreynir, alpareynir, úlfareynir og heggur.
Í húsagötum og vistgötum er lögð áhersla á að viðhalda sýn milli vegfaranda.
Hönnunarhandbók er leiðbeinandi fyrir útfærslur almenningsrýma og á að tryggja að rýmin verði aðlaðandi, vistvæn og örugg fyrir alla.