Gatnamót við Sævarhöfða. Mynd: Arkís arkitektar


Ártúnshöfði gengur í endurnýjun lífdaga

Ártúnshöfði gengur í endurnýjun lífdaga. Áætlað er að í þessu nýja borgarhverfi rísi allt að átta þúsund íbúðir og að þar geti búið allt að tuttugu þúsund borgarbúar.

Í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að skipulagsvinna sé í gangi um þessar mundir sem byggir á rammaskipulagi frá 2016 sem unnið var í kjölfar hugmyndasamkeppni. Áætlað er að umbreyta athafna- og iðnaðarsvæðinu á Höfðanum í íbúabyggð. Búast megi við því að flutningur á fyrirtækjum hefjist á næstu tveimur til þremur árum og fyrstu íbúðirnar gætu orðið tilbúnar strax á næsta ári.

 

Grænt og þétt

Tillaga að deiluskipulagi [innskot: vegna deiliskipulagsáfanga 2B] hefur nú verið samþykkt í borgarráði eftir auglýsingu og því hægt að undirbúa næstu skref í framhaldinu. Í bókun meirihlutans ellefta júlí segir að samþykkt hafi verið skipulag fyrir 582 íbúðir í nýja hverfinu og að „grófu iðnaðarsvæði sé umbreytt í grænt og þétt íbúðahverfi við lykilstöðvar borgarlínu.“

Innan rammaskipulagssvæðis Elliðaárvogs/Ártúnshöfða hefur deiliskipulagsvinnu fyrir allt að 2.980 íbúðir verið lokið og 2.520 í eru í ferli.

„Þegar breyta á svona svæði sem hefur verið athafna- og iðnaðarstarfsemi um langt skeið, þá þarf til dæmis að huga að því að jarðvegurinn sé viðeigandi fyrir íbúðarhúsnæði, og skipta ef það er mengun og það getur tekið einhvern tíma,“ er haft eftir Sólveigu Sigurðardóttur, arkitekt og verkefnisstjóra hjá skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar.

 

Einstök staðsetning og mikil veðurblíða

Í tilkynningunni segir að staðsetning svæðisins sé einstök og að nálægð við strandlengjuna og útivistarsvæði Elliðaárdals skapi svæðinu mikla sérstöðu í borginni.

„Elliðaárvogur er einn veðursælasti staðurinn í Reykjavík en þar gætir ekki norðanstrengs og Ártúnshöfðinn skýlir fyrir suðaustanátt. Miðlæg lega þess á höfuðborgarsvæðinu og nálægð við stofnæðar eru forsendur fyrir þéttbyggðu borgarhverfi sem styður við breyttar áherslur í samgöngumálum,“ segir í tilkynningunni.

Á svæðinu öllu er gert ráð fyrir tveimur grunnskólum og einum safnskóla í bland við blómlega þjónustu- og atvinnustarfsemi við Krossmýrartorg.

Umfjöllunin hér að ofan var birt  á visir.is þann 12. júlí 2024.

Til baka

Aðrar fréttir

Klasi hefur uppbyggingu 133 íbúða á Eirhöfða 8.
Lífsgæðakjarni á Borgarhöfða
Vinningstillögur kynntar í samkeppni um hönnun Krossamýrartorgs

Vefhönnun og vinnsla: ONNO ehf.