Eirhöfði 7 var fyrsta húsið sem reist var samkvæmt nýju skipulagi á Ártúnshöfða. Glæsilegt hús á hamrinum með miklu útsýni yfir Elliðaárvog.
Klasi efndi til hönnunarsamkeppni um Krossamýrartorg sem átti að leiða til bestu mögulegu hönnunar á nútíma skrifstofuhúsnæði, fjölnota samkomuhúsi og aðaltorgi hverfisins fyrir framtíðar íbúa, gesti og starfsfólk.
Vinningstillögurinar voru tvær og komu frá Henning Larsen og sameiginlegu teymi skipað Sen & Son og Hille Melbye.
Samþykkt var deiliskipulag fyrir fyrsta uppbyggingarsvæðið á Ártúnshöfða, Krossamýrartorg. Á fyrsta svæðinu er gert ráð fyrir um 1.300 íbúðum auk um 40 þúsund fermetrum atvinnuhúsnæðis með menningarhúsi, verslun, þjónustu og skrifstofuhúsnæði.
Ártúnshöfðinn var endurskilgreindur sem þróunarsvæði í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Í kjölfarið var haldin hugmyndasamkeppni árið 2015 um þróun Ártúnshöfða og Elliðaárvogs og í framhaldi unnið rammaskipulag sem samþykkt var í ársbyrjun 2016.
Rammaskipulag leggur meginlínur og í kjölfarið hófst vinna við deiliskipulag einstakra hluta svæðisins.
Klasi byrjar að kaupa lóðir á svæðinu með langtímamarkmið um þróun á svæðinu
Björgun og Reykjavíkurborg sömdu um uppbyggingu íbúðar- og atvinnuhverfis á uppfyllingu árið 1992. Úr varð uppbygging Bryggjuhverfisins þar sem fyrstu húsin risu árið 1998. Deiliskipulag nýjasta hluta Brygguhverfis var svo samþykkt árið 2018.
Miklar landfyllingar voru gerðar við Elliðaárvog, sem breyttu ásýnd svæðisins og mynduðu m.a. Geirsnef og landið undir Bryggjuhverfinu.
Hverfishluti sem kallaður hefur verið Sævarhöfði norður er áformaður á landfyllingu sem reiknað er með að verði tilbuin árið 2030.
Steypuframleiðsla hófst á svæðinu upp úr miðbiki aldarinnar og markaði hún upphaf iðnaðaruppbyggingar Ártúnshöfða og svæðisins við Elliðaárvog.
Með aðalskipulagi Reykjavíkur 1962-83 fékk Ártúnshöfði formlega hlutverk iðnaðarhverfis. Í fyrstu gekk hægt að koma fyrirtækjum á svæðið enda þótti það langt frá íbúðabyggðinni á þeim tíma.
Sand- og grjótnám hófst á svæðinu og varð það eitt af helstu byggingarefnaöflunarsvæðum borgarinnar.
Á árunum 1936-1938 voru fimmtán skikar, s.k. Krossamýrarblettir, úthlutaðir til leigu eða erfðafestu. Á Krossamýrarbletti 1 var reist hús sem nefnt var Hvammur og við það lagður grunnur að trjálundi, Fornalundi, sem BM Vallá hefur hlúð vandlega að í áratugi og fær lundurinn virðingarsess í nýju skipulagi.
Á hernámsárunum reisti bandaríski herinn herskálahverfi á Ártúnshöfða, m.a. Camp Battle og Camp Hickam.
Svæðið sem nú kallast Ártúnshöfði var áður hluti af bújörðum Ártúns og Árbæjar. Landið einkenndist af holtum, mýrum og ásum. Þjóðleiðin frá Reykjavík lá yfir vaðið á Elliðaám sunnan við Ártún og að Árbæ og vegna þess hve mýrarnar voru víðlendar umhverfis Reykjavík var greiðasta leiðin frá kaupstaðnum um holtin.
Á árunum 1226 til 1838 tilheyrði landið Viðeyjarklaustri en Reykjavík keypti Ártún og Árbæ árið 1906 með það að markmiði að nýta vatnsból í Elliðaárdalnum.